Site Overlay

Vísindarannsóknir

Þýskir vísindamenn mældu dýpt og rannsökuðu lífríki Kersins árið 1932. Höfðu þeir meðferðis gúmmbát og net. Vatnið reyndist samkvæmt mælingum þeirra vera dýpst átta til níu metrar og leireðja á botninum. Talsvert fannst af hornsíli í vatninu og sömuleiðis vatnakrabbar og svif.

Geir Gígja náttúrufræðingur gerði ítarlegar rannsóknir á Kerinu frá 1941 til 1954 og naut hann aðstoðar Magnúsar Jóhannessonar, bónda í Alviðru, og Benedikts Einarssonar, bónda í Miðengi. Reyndist mesta dýpi vera 8,8 metrar, en mikill munur á hæsta og lægsta vatnsyfirborði, eða 4,8 metrar. Hitamælingar leiddu ljós að hitinn væri oftast um núll gráður á Celsíus að vetri til en hæsti hiti í vatninu mældist 16 stig að sumri. Meðaltalshitastig vatnsins að sumri var um 12–16 stig.

Rannsóknirnar leiddu í ljós margvíslegt dýralíf. Á botni þess mátti meðal annars finna þráðorma, rykmýslirfur, vatnabobba og vatnaskeljar. Uppi um vatnsyfirborðið fundust svifdýr, brunnklukkur, hornsíli og fleiri smádýr.

Close Bitnami banner
Bitnami