Vísindarannsóknir

Þýskir vísindamenn mældu dýpt og rannsökuðu lífríki Kersins árið 1932. Höfðu þeir meðferðis gúmmbát og net. Vatnið reyndist samkvæmt mælingum þeirra vera dýpst átta til níu metrar og leireðja á botninum. Talsvert fannst af hornsíli í vatninu og sömuleiðis vatnakrabbar og svif.

Geir Gígja náttúrufræðingur gerði ítarlegar rannsóknir á Kerinu frá 1941 til 1954 og naut hann aðstoðar Magnúsar Jóhannessonar, bónda í Alviðru, og Benedikts Einarssonar, bónda í Miðengi. Reyndist mesta dýpi vera 8,8 metrar, en mikill munur á hæsta og lægsta vatnsyfirborði, eða 4,8 metrar. Hitamælingar leiddu ljós að hitinn væri oftast um núll gráður á Celsíus að vetri til en hæsti hiti í vatninu mældist 16 stig að sumri. Meðaltalshitastig vatnsins að sumri var um 12–16 stig.

Rannsóknirnar leiddu í ljós margvíslegt dýralíf. Á botni þess mátti meðal annars finna þráðorma, rykmýslirfur, vatnabobba og vatnaskeljar. Uppi um vatnsyfirborðið fundust svifdýr, brunnklukkur, hornsíli og fleiri smádýr.