Myndun Kersins

kerid10Eldfjallafræðingar töldu áður fyrr að Kerið væri sprengigígur. Sprengigígar verða til í sprengigosum, sem geta myndað djúpa gígkatla. Auknar rannsóknir í Grímsnesi hafa ekki leitt í ljós neitt gjóskulag sem hægt er að rekja til sprengigosa í Kerinu. Eldfjallafræðingar telja frekar að Kerið hafi upphaflega verið allstór gjallgígur.

Gígurinn eins og hann lítur út nú hefur sennilega orðið til þannig að undir lok eldgossins hefur lítil kvikuþró undir gígnum tæmst og hafi það haft hrun í för með sér. Neðan vissra marka eru holur og glufur bergsins fylltar vatni sem nefnist grunnvatn en yfirborð þess grunnvatnsflötur. Í Kerinu er afrennslislaust stöðuvatn þar sem vatnsyfirborðið fellur saman við grunnvatnsflötinn og er háð sömu sveiflum og hann. Gígurinn er því eins og gluggi niður í grunnvatnið.