Kerið og nágrenni þess

Ferðamenn við Kerið.

Ferðamenn við Kerið.

Kerið er um 6500 ára gamall gígur nyrst í gígaröð sem nefnist Tjarnarhólar. Það er sporöskjulaga, um 270 metra langt og 170 metra breitt. Dýpt gígsins er 55 metrar en í botni hans er tjörn sem er breytileg að dýpt 7–14 metrar. Kerið er á jarðeldasvæði, sem er að hluta á hinu mikla gosbelti, sem oftast er kennt við Reykjanesskaga og Langjökul. Þetta jarðeldasvæði lætur lítið yfir sér, enda eru gosstöðvar flestar lágar og hraun og gígir víða hulin miklum gróðri. Þó eru þrjár eldstöðvar í Grímsnesi vel kunnar og sýnilegar, en þær eru Kerið, Seyðishólar og Kerhóll.

Grímsneshraun þekja um 54 ferkílómetra og hafa runnið frá tólf eldsstöðvum. Seyðishóla-Kerhólshraunið er lang stærst eða um 23,5 ferkílómetrar. Tjarnhólahraun er um 11,9 ferkílómetrar, Kálfshólshraun 8,0 og Álftarhólahraun 6,2. Hin hraunin eru hvert um sig minni en 3,5 ferkílómetrar. Heildarmagn hrauna sem upp hafa komið í Grímsnesi má áætla að sé nálægt 1,2 ferkílómtrar sem er svipað og það magn sem myndaðist í Surtseyjareldum 1963–1967.